Nýsköpun á ÍslandiSkapa.is
Valmynd
Nýsköpun á ÍslandiSkapa.is
Valmynd
ÁttavitiFræðsla
1. Hvar byrja ég?
2. Mótun hugmyndar
3. Frumgerðir (MVP)
4. Lyfturæða
5. Kynning (pitch)
6. Teymið
7. Markaðssetning
8. Viðskiptaáætlun
9. Fjármögnun
10. Á hvaða sviði?
11. Stofnun fyrirtækis
12. Ítarefni & nám

Nýsköpun 101

Ertu með viðskiptahugmynd á byrjunarstigi eða langar þig einfaldlega að fræðast um nýsköpun? Leiðarvísir fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref í nýsköpun.

Hér finnur þú fræðslu, upplýsingar og gagnlega hluti sem er gott að vita af þegar er verið að taka sín fyrstu skref í nýsköpunarumhverfinu.

1. Hvar byrja ég?

Ertu ekki viss um hvort frumkvöðlaheimurinn sé fyrir þig? Einfaldasta og besta leiðin til að finna út úr því er einfaldlega að hoppa út í djúpu laugina og prófa. Það eru margar góðar ástæður fyrir að prófa að stofna sprotafyrirtæki og ef þér skyldi mistakast er reynslan ávallt verðmæt og nýtist ef þú stofnar sprotafyrirtæki seinna meir. Einnig getur reynslan veitt þér aukna möguleika á vinnumarkaði, en mörg fyrirtæki sjá það sem merki um frumkvæði og hæfni til að leiða verkefni.

Er frumkvöðlaheimurinn fyrir mig? (17 mín)
Í myndbandinu hér er gefin innsýn inn í hvað það þýðir að vera frumkvöðull fyrir þau sem eru ekki viss um hvort þau eru tilbúin til að stofna sprotafyrirtæki í dag en gætu viljað það í framtíðinni. Hvenær á að taka áhættu og segja upp vinnunni til að stofna sprotafyrirtæki er spurning sem margir velta fyrir sér.
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Ráð
Ertu með viðskiptahugmynd og veistu ekki hvar er best að byrja? Ein frábær og skilvirk leið til að taka fyrsta skrefið er að taka þátt í viðskiptahröðlum þar sem þú færð endurgjöf, reynslu, fróðleik og innsýn inn í sprotaheiminn. Einn þeirra, Gulleggið, er frumkvöðlakeppni á hugmyndastigi og er því tilvalinn byrjunarreitur sem hentar bæði þeim sem eru með hugmynd og fyrir þá sem vilja taka þátt en eru án hugmyndar.
Ráð
Sprotaferðalagið er ekki línulegt heldur upp og niður eins og rússíbani. Eina stundina ertu að sigra heiminn og aðra stundina gengur ekkert upp. Í sprotafyrirtækjum gerast hlutirnir oft hratt og geta frumkvöðlar jafnvel upplifað báðar þessar tilfinningar innan sama sólarhrings. Eitt af lykileiginleikum frumkvöðla sem skara fram úr er seigla og þrautseigja í gegnum erfiðu kaflana.
Netnámskeið

Fyrir ítarlegri fræðslu þá er hér að neðan bent á tvö gagnleg netnámskeið (á ensku) sem eru opin og gjaldfrjáls. Bæði netnámskeiðin eru byggð upp á myndböndum og því er hægt að horfa á þau hvenær sem er. Veldu það námskeið sem hentar þér betur, eða taktu bæði!

  • Startup Academy er hraðnámskeið (4-5 klst.) á vegum Sting í Svíþjóð með mörgum stuttum myndböndum frá fremstu frumkvöðlum þar í landi.

  • How to Start a Startup er ítarlegra og lengra (15-16 klst.) námskeið og hefur verið kennt hjá Stanford University á vegum frumkvöðulsins Sam Altman, meðstofnanda OpenAI og fyrrum forseta „Y Combinator“ (einn frægasti viðskiptahraðall í heimi). Námskeiðið er kennt af mörgum stórum nöfnum á borð við stofnendur Airbnb, Stripe, Pinterest og fleiri. Þrátt fyrir að námskeiðið er frá 2014 er það langt frá því að vera orðið úrelt.

Það má einnig benda á að hægt er að skrá sig í nám á háskólastigi tengt nýsköpun.

2. Mótun hugmyndar

Þegar viðskiptahugmyndir skjótast upp í kollinn þarf að meta þær og móta, sannreyna hvort hugmyndin sé raunverulega góð, nálgast endurgjöf og aðlaga. Hér verður stiklað á nokkrum lykilþáttum sem snúa að mótun viðskiptahugmynda, frá því að hugmynd kviknar og að byggingu frumgerðar.

Lean Canvas

Þegar þú ert með viðskiptahugmynd er hægt að nota einföld tól til að gera „mini-viðskiptaáætlun“. Með slíkri áætlun er hægt á stuttum tíma að kortleggja viðskiptahugmyndina þannig hægt er að meta og dæma hana áður en tekin er ákvörðun að fara lengra. Til eru alls konar tól fyrir nýsköpunarhugmyndir t.d. Lean Canvas, Business Model Canvas og Startup Canvas. Markmið með tólum eins og þessum er að forðast að eyða mörgum mánuðum í að útbúa fullbúna viðskiptaáætlun og hrinda henni í framkvæmd þegar það er síðan ekki markaður fyrir vörunni.

Lean Canvas er tól sem hentar einkar vel fyrir nýsköpunarhugmyndir, er einungis ein blaðsíða og oft hægt að rissa upp fyrstu útgáfu á innan við 20 mínútum. Þannig er hægt að kortleggja tugi viðskiptahugmynda á stuttum tíma til að finna bestu hugmyndina og taka hana áfram. Þú getur notað Lean Canvas rafrænt á netinu eða sótt skjalið hér til hliðar

Að fylla út Lean Canvas

Gott er að nota post-it miða til að fylla inn í reitina í skjalinu. Ráðlagt er að fylla það út í þessari röð:
  • Vandamálið (Problem): Hvaða vandamál ertu að leysa? Þessi kafli er mikilvægur. Má vera fleira en eitt vandamál.
  • Markhópar (Customer Segments): Hvaða hópar eru aðalmarkhóparnir þínir? Hverjir verða fyrst viðskiptavinir þínir? Hverjir munu elska vöruna þína? Það má nefna meira en einn markhóp.
  • Lausnin (Solution): Hver er lausnin við hverju og einu vandamáli? Það er viljandi gert að það var byrjað á að fylla út vandamálið og svo núna lausnina. Algengt er að verða of ástfanginn af eigin lausn án þess að kafa nógu djúpt og skilja hvaða vandamál er verið að leysa.
  • Virðistilboð (Unique Value Proposition): Hvaða virði ert þú að færa viðskiptavininum? Hvaða þarfir viðskiptavina ert þú að leysa betur en aðrir með lausninni?
  • Mælikvarðar (Key Metrics): Hver er aðalmælikvarðinn fyrir árangur á þinni hugmynd.
  • Dreifileiðir (Channels): Hvernig er vörunni/þjónustunni komið til skila til viðskiptavina.
  • Tekjuleiðir (Revenue Stream): Hvernig fást tekjur af lausninni? T.d. er þetta sala eða áskriftarmódel? Sleppa öllum tölum.
  • Kostnaður (Cost Structure): Helstu kostnaðarliðir, t.d. launa-, markaðs- eða rekstrarkostnaður. Sleppa öllum tölum.
  • Forskot (Unfair Advantage): Hvaða forskot hefur þú, af hverju ert þú réttinn aðilinn til að gera þetta? Styrkleikar og eiginleikar þannig það er erfitt fyrir samkeppnisaðila að herma eftir þér. Dæmi: einkaleyfi, sterkt vörumerki, einkasamtarf eða sérþekking.

Sniðugt er að nota mismunandi liti á post-it miðum, einn litur per markhóp sem þú hefur skilgreint.

Ráð
Hér má finna dæmi úr Masterclass vinnusmiðju hjá Gullegginu um hvernig Lean Canvas er notað og hvernig það gæti litið út fyrir fyrirtækið Hopp.
Ráð
Hægt er að nota Lean Canvas sem lifandi plagg, uppfæra það og ítra eftir því sem hugmyndin er mótuð eftir endurgjöf og samtöl við mögulega notendur.
Að fá góðar hugmyndir

Hvernig fær maður góðar hugmyndir, hvernig veit maður að þær séu raunverulega góðar og hvernig er hægt að sannreyna það (e. validate)?

Til að fá góðar nýsköpunar hugmyndir er nauðsynlegt að einbeita sér að finna raunverulegt vandamál sem mögulegir viðskiptavinir standa frammi fyrir. Of algengt er að frumkvöðlar sem eru að taka sín fyrstu skref fá hugmynd að lausn án þess að kafa nógu djúpt í vandamálin sem lausnin á að leysa og hvort þau vandamál séu raunveruleg og nógu stór. Oft er betra að horfa á vandamál og finna lausnir við þeim fremur en að vera með lausn og finna hvaða vandamál passa við lausnina.

Þú getur byrjað að fylgjast með áskorunum og vandamálum sem pirra þig (e. pain points) í daglegu lífi, í skóla eða vinnu, og reynt að finna út hvernig hægt er að leysa þau vandamál á nýjan hátt. Til að tryggja að hugmyndin leysi raunverulegt vandamál er mikilvægt að tala við mögulega notendur, greina markaðinn og skoða núverandi lausnir til að fá innsýn inn í óuppfylltar þarfir og möguleika til úrbóta.

Hvernig á að meta hugmyndir? (32 mín)
Hér er farið yfir hvernig á að finna góðar hugmyndir, meta þær og sannreyna að þær leysi raunveruleg vandamál. Það er ómögulegt að staðhæfa fyrirfram hvort hugmynd muni ná árangri og verða risastór, en farið er yfir verkfæri sem þú getur notað til að meta hvaða hugmyndir eru líklegri en aðrar til að ná velgengni. Dæmi eru tekin um hvernig stór sprotafyrirtæki fundu og sannreyndu hugmyndir sínar.
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Ráð
Í sprotaheiminum er oft talað um að mistakast snemma (e. fail fast), þ.e. að finna fljótt út hvað virkar ekki. Þannig skapast meira rými og tími til að finna það sem virkar vel. Þetta hugtak á oft vel við þegar metið er hvort viðskiptahugmynd sé góð eða ekki. Það getur þó verið fín lína því viðskiptahugmynd getur auðveldlega þróast frá því að vera galin í að vera frábær.
Að tala við notendur

Líkt og hefur verið nefnt er mikilvægt að ræða við mögulega notendur og viðskiptavini. Safnaðu endurgjöf með því að taka viðtöl eða gera kannanir og taktu sérstaklega eftir hvað það er sem pirrar þessa aðila (e. pain points). Bestu nýsköpunarhugmyndirnar koma oft frá djúpum og góðum skilningi á þörfum notandans og vilja til þess að takast á við þær þarfir. Þessi nálgun hjálpar þér við að þróa hugmyndir sem flokkast ekki aðeins sem nýsköpunarhugmynd, heldur eiga möguleika að ná árangri og verða stórar.

Farðu því og talaðu sem fyrst við kúnnahópinn þinn til að skilja vandamálin þeirra, því fleiri því betra. Á meðan ekki er talað við mögulega notendur þá byggir viðskiptahugmyndin í besta falli á tilgátum. Forðastu að eyða mörgum mánuðum og fjármagni í að skrifa fullbúna viðskiptaáætlun og svo hrinda hugmyndinni þinni í framkvæmd, aðeins til að komast að því að lausnin er ekki að leysa raunverulegt vandamál fyrir kúnnahópinn.

YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Að tala við notendur (17 mín)
Að tala við mögulega notendur er mikilvægt, en hvernig fer ég að því? Hvað á ég að spyrja og hvað á ég ekki að spyrja? Hér er þessum spurningum svarað og farið yfir hvernig upplýsingar úr slíkum samtölum eru nýttar til að móta hugmyndina og smíða frumgerð.
Ráð
„Pivot“ er algengt hugtak í sprotaheiminum og mætti þýða sem „snúningur“ á íslensku. Að taka snúning (e. pivoting) er þegar haldið er sömu grunnstefnu en áherslum breytt og þær aðlagaðar. Sprotafyrirtæki taka oft snúning á hugmyndum sínum eftir að hafa talað við mögulega notendur eða prófað frumgerð á lausninni. Til að mynda voru upprunalegu hugmyndir AirBnB og Instagram töluvert frábrugðnar þeim sem við sjáum í dag, fyrirtækin breyttu og aðlöguðu hugmyndir sínar eftir að hafa prófað þær á notendum og séð hvað virkaði og hvað ekki.
Vörumarkaðshæfni (e. Product Market Fit)

Vörumarkaðshæfni er þegar það tekst að samræma lausn og þarfir markaðarins þannig að lausnin uppfylli raunverulega eftirspurn á þeim markaði. Það er töfrandi augnablik þegar viðskiptahugmyndin þín fer frá hugmyndastigi, yfir í að verða ekki einungis að veruleika, heldur ná flugi. Sterk vísbending um hvort vörumarkaðshæfni hafi verið náð er þegar notendur lausnarinnar eru orðnir öflugir talsmenn vörunnar, nota hana endurtekið og mæla með henni til annarra. Slíkt leiðir til sjálfbærs vaxtar (e. organic growth), þar sem notendur segja öðrum frá. Ef þú ert með vöru sem er að seljast en er lítið notuð af notendum og þeir eru ekki að mæla með vörunni, þá ertu að öllum líkindum ekki með markaðshæfa vöru.

YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Er varan markaðshæf? (2 mín)
Stutt myndband með dæmi um hvernig hægt er að meta hvort vörumarkaðshæfni er náð.
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Finna markaðshæfi vöru (58 mín)
Ítarlegt myndband sem fer á dýptina hvernig vörumarkaðshæfni er fundin.

3. Frumgerðir (MVP)

Þegar hugmynd hefur verið ítruð eftir samtal við mögulega notendur er gott að þróa frumgerð, stundum kallað MVP (e. Minimum Viable Product), til að sannreyna hugmyndina enn frekar. Með einfaldri frumgerð er hægt að kynna hugmyndina enn betur til mögulegra notenda og safna dýrmætri endurgjöf sem hjálpar þér að meta frekar hvort lausnin leysi raunveruleg vandamál. Enn fremur hjálpar það að finna hvaða grunn eiginleikar eða partur af lausninni er það sem skiptir mögulega notendur mestu máli. Með slíkar upplýsingar að vopni getur þú mótað og tekið snúning (e. pivoting) á viðskiptahugmyndinni áður en þú ferð að þróa og smíða fullbúna lausn. Hægt er að nýta Fab Lab smiðjur til að smíða og gera alls konar frumgerðir. Þú finnur frekari upplýsingar um Fab Lab smiðjur á Íslandi hér.

Gerð frumgerðar (18mín)
Frumgerðir eru nauðsynlegar til að prófa viðskipta-hugmyndir á fljótan og skilvirkan hátt. Þær eiga að vera smíðaðar hratt og aðeins innihalda lykilvirkni sem þjónar aðalþörfum notandans. Forðastu fullkomnun, frumgerðir eiga að vera ófullkomnar. Nýttu endurgjöf frá notendum til að þróa frumgerðina áfram og endurtaktu.
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Ráð
Frumgerðir getur verið á öllum stigum, jafnvel svo einfalt eins og teikning á blaði. Stundum er gott að hafa fyrstu frumgerðina nógu einfalda til að fá snemmbúna endurgjöf sem fyrst áður en frekari vinna er lögð í að ítra og betrumbæta hana.

4. Lyfturæða

Þegar farið er af stað með viðskiptahugmynd er mikilvægt að útbúa og æfa lyfturæðu til að segja frá hugmyndinni. Lyfturæða er stutt kynning á hugmyndinni sem ætti aðeins að taka um 20-60 sekúndur. Hugtakið kemur frá hugmyndinni um að hitta einhvern mikilvægan í lyftu og þú gætir kynnt viðskiptahugmyndina þína á skýran og eftirminnilegan hátt áður en lyftuferðinni lýkur.

Lyfturæða er mikilvæg fyrir frumkvöðla sem eru að leita eftir aðstoð, endurgjöf, meðstofnendum og fjármagni. Alltof algengt er að fólki fái spurninguna um hver viðskiptahugmynd þeirra er og það getur ekki sagt frá henni í stuttu máli á nógu skýran, áhugaverðan og grípandi máta. Það er erfiðara en það sýnist og því er ráðlagt að æfa, ítra og betrumbæta lyfturæðuna sína.

Lyfta (Pexels)
Ráð

Segðu sem flestum frá hugmyndinni þinni og nýttu þér lyfturæðuna sem þú varst að æfa. Þó það sé alltaf smá áhætta að segja frá hugmyndinni þá ofmeta flestir þá áhættu sem útilokar þau frá ýmissi aðstoð, hjálp, stuðningi og ábendingum frá öðrum. Mundu að flestir vilja hjálpa.

5. Kynning - Pitch Deck

Pitch deck sem mætti þýða á íslensku sem sölukynningu, þar sem markmiðið er að sannfæra hlustandann, er oft á bilinu 8-10 glærur / síður. Slíkar kynningar eru oft notaðar þegar er verið að kynna viðskiptahugmynd til fjárfesta, sótt er um styrki, sannfæra meðstofnendur/starfsmenn á fyrstu stigum verkefnis eða einfaldlega til að skerpa á eigin hugmynd. Afar mikilvægt er að aðlaga kynninguna og efnið eftir tilgang kynningarinnar og hver hlustandinn er. Því getur kynningin verið mismunandi eftir þekkingu hlustandans og hvort verið er að kynna fyrir fjárfesti eða mögulegum meðstofnanda. Hér má sjá fyrra myndband (68 mín) og seinna myndband (45 mín) úr Masterclass Gulleggsins 2022 um hvernig á að búa til gott pitch deck. Þar er farið yfir öll helstu atriði sem ber að hafa í huga.

Að æfa og ítra kynningu aftur og aftur hjálpar að verða betri við að selja hugmyndina. Það einnig fær þig til að hugsa dýpra um verkefnið í heild sinni, og er gott tækifæri til að skerpa á viðskiptahugmyndinni.

Dæmi um uppbyggingu á sölukynningu (e. pitch deck) með 11 glærum byggt á sniðmáti frá fjárfestingasjóðnum Sequoia Capital.
  1. Nafn og tilgangur fyrirtækisins (e. Name and company purpose)
    Lýsið lausninni eða vörunni í einni setningu sem er í senn skýr, stutt og eftirminnileg.
  2. Vandamálið (e. Problem)
    Hvert er raunverulega vandamálið sem markhópurinn ykkar er að glíma við? Hvernig er það tæklað í dag og hver eru vandamálin við núverandi lausnir.
  3. Lausnin (e. Solution)
    Hver er lausnin ykkar? Lýsið lausninni og kostum hennar á mjög skýran hátt í eins fáum orðum og hægt er.
  4. Af hverju núna (e. Why now?)
    Af hverju er rétti tíminn núna til að koma með þessa lausn. Hafa orðið tæknilegar, samfélagslegar eða markaðslega breytingar undanfarið sem er ástæða þess að rétti tíminn er núna? Af hverju er lausnin ekki til nú þegar?
  5. Markaðurinn (e. Market potential)
    Hvernig lítur markhópurinn út? Hversu stór er markaðurinn? Er þetta vaxandi markaður og hversu mikið gæti hann vaxið?
  6. Samkeppni (e. Competition)
    Hvernig lítur samkeppnin út, hvar staðsetjið þið ykkur miðað við samkeppnina og hvert er ykkar samkeppnisforskot?
  7. Varan (e. Product)
    Sýnið demó af vörunni ef hægt er. Allt í lagi að nota myndbönd en sleppa að hafa tal með myndbandinu og frekar tala með í kynningu. Forðast að treysta á netsamband, aldrei að vita hvenær tæknivandamál koma upp.
  8. Tekjumódel (e. Business Model)
    Hvernig ætlið þið að fá tekjur, hvert er tekjumódelið og hvernig virkar það?
  9. Teymið (e. Team)
    Dragið fram styrkleika teymisins. Hver er bakgrunnur teymisins? Hvernig er þetta teymi að fara leysa þetta vandamálið? Eru þið með ráðgjafa til að hjálpa ykkur?
  10. Framtíðarsýn (e. Vision)
    Ef allt gengur eftir, hvernig lítur framtíðin og fyrirtækið út eftir 5 ár? Hvað hafið þið byggt á þessum tíma?
  11. Beiðnin þín (e. The ask)
    Hvað ertu að biðja um? Ef þið eruð að biðja um fjármagn eða styrk, hversu mikið eru þið að biðja um, í hvað nýtist fjármagnið og hvar verðið þið eftir ákveðinn tíma ef þið fáið fjármagnið.

Ítarlegri upplýsingar um innihald hvers kafla má finna hér.

Ráð

Framsetning og útlit á kynningu getur skipt gríðarlega miklu máli. Hér finnur þú góð ráð um hvernig á að hanna betri kynningu.

Ráð

Hægt er að leita á netinu að dæmum um pitch deck frá hinum og þessum fyrirtækjum. Til að mynda má finna lista af gömlum og upprunalegum kynningum frá fyrirtækjum á borð við Dropbox, Airbnb, Facebook og Snapchat.

6. Teymið

Teymið skiptir öllu máli. Algengt er að fólk vanmeti á fyrstu stigum mikilvægi teymisins og ofmeti virði hugmyndarinnar. Að vera fleiri en einn í teymi eykur líkurnar að ná árangri enda fleiri hendur og meiri þekking og kunnátta innan teymisins. Teymið þarf þó ekki endilega að vera með sérfræðing á öllum sviðum, að hafa drífandi og öflugt teymi er mikilvægara, margt er hægt að læra og ráðgjafar geta hjálpað með annað.

Hins vegar er ekki ómögulegt að stofna sprotafyrirtæki einn síns liðs og til eru mörg dæmi um slík sprotafyrirtæki sem hafa náð góðum árangri. Það er þó oft erfiðara; minni stuðningur, minni fjölbreytileiki í sjónarmiðum og skoðunum, ekki hægt að kasta hugmyndum fram og til baka, færri umræður um lausnina og vandamálið sem verið er að leysa. Þar að auki eru fjárfestar ólíklegri til að fjárfesta í slíkum fyrirtækjum og oft eru minni líkur að fá styrki.

Teymi (Pexels)
Hugmyndir og vörur breytast á leiðinni

Fjárfestar horfa almennt meira á teymið en viðskiptahugmyndina á fyrstu stigum sprotafyrirtækis. Ein ástæða fyrir því er sú að á fyrstu stigum er líklegt að hugmyndin eigi eftir að breytast. Ofarlega í huga sprotafjárfesta er því geta teymisins til að móta viðskiptahugmyndina, framkvæma hana og hafa seiglu og dugnað til að fara í gegnum erfiðu kafla sprotaferðalagsins.

Meðstofnendur

Oft er talað um að gott sé að bæta við aðilum í teymið sem búa yfir sérþekkingu sem teymið skortir (t.d. tengt markaðssetningu, sölu eða fjáröflun). En fyrst og fremst er þó mikilvægara ef bæta skal við meðstofnanda, að þú og meðstofnandinn þinn passið vel saman.

Að finna rétta meðstofnandann
Af hverju er þörf á meðstofnendum og hvar er hægt að finna þá? Hvernig er hægt að vita hvort mögulegur meðstofnandi sé sá rétti? Reynt verður að svara þeim spurningum í þessu myndbandi ásamt því að deila góðum ráðum um hvernig á að vinna vel saman.
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo

7. Markaðssetning, viðskiptavinir og samkeppni

Markaðssetning og samkeppnisgreining er víðfeðmt svið og verður ekki fjallað um það í heild sinni hér. Hér verður þó stiklað á nokkrum mikilvægum þáttum sem tengist að koma vöru á markað og hvernig hægt er að nálgast fyrstu viðskiptavinina. Að lokum er komið inn á markaðsstyrki og verkfæri fyrir samkeppnisgreiningar.

Örmyndbönd um markaðssetningu
Örmyndbönd frá landshlutasamtökunum um hvað ber að hafa í huga varðandi markaðssetningu
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Ráð
Samkeppni er ekki alltaf sú sem maður heldur að hún sé. Eitt dæmi er Kindle lesbrettið sem er ekki einungis í samkeppni við hefðbundnar bækur heldur líka óbeint við frítíma fólks sem það eyðir í sjónvarpsgláp eða samfélagsmiðla. Annað dæmi er að Facebook keppir óbeint við kaffipásur á vinnustöðum þar sem fólk hittist og spjallar saman, og þess í stað getur það tekið vinnupásu við skrifborðið og spjallað við vini sína stafrænt í gegnum Facebook.
Fyrstu viðskiptavinirnir
Nálgast fyrstu viðskiptavinina (23 mín)
Gagnleg ráð um hvernig á að nálgast fyrstu viðskiptavinina, en einnig hvernig á að nálgast að selja vöru og verðleggja hana. Enn fremur er farið yfir hvað þýðir það að gera hluti sem skala ekki og af hverju það er svo gríðarlega mikilvægt fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki.
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Að fara af stað
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Að gefa út vöruna (21 mín)
Flestir frumkvöðlar ofhugsa hvernig eigi að gefa út vöruna sína, að það sé bara eitt tækifæri og allt þurfi að vera fullkomið því annars mun enginn kaupa vöruna eða fjárfesta í henni. Sú hugsun er oftast röng, ef varan þín er fullkomin þegar hún kemur út þá ertu líklega að gefa hana út alltof seint. Hér er farið yfir mismunandi leiðir til að gefa út vöru og hvernig vakin er athygli á þeim.
Markaðssetning erlendis

Áður en hafist er handa við útflutning er mikilvægt að framkvæma markaðsrannsókn, greina markaðinn og velja viðeigandi leið til markaðssetningar. Hægt er að hafa samband við Íslandsstofu til að fá ráðgjöf. Þegar útflutningur hefst er brýnt að muna að markaðir eru ólíkir og krefjast sértækrar rannsóknar. Mikilvægt er að skilja lög, reglur og menningu nýs markaðar. Stundum er nauðsynlegt að nýta sér milliliði eða umboðsaðila, og sumar vörur krefjast jafnvel staðbundinnar viðveru með dótturfélögum eða útibúum.

Markaðsstyrkir

Ýmsir styrkir geta nýst til markaðssóknar. Í því samhengi er vert að nefna Markaðsstyrk Rannís, sem getur annars vegar verið fyrir markaðsþróun og hins vegar fyrir markaðssókn. Þú finnur yfirlit yfir alla styrki hér.

Samkeppnisgreining

Inni á síðunni miro.com má finna stafrænt samkeppnisgreiningar sniðmát sem er einfalt í notkun; finndu út hvaða fyrirtæki þú ert í samkeppni við og hvernig varan þín er samkeppnishæf. Hægt er að lesa sér meira til um það og aðrar aðferðir á vef miro.com.

8. Viðskipta- & fjárhagsáætlun

Gott er að byrja á einföldu formi af viðskiptaáætlun líkt og Lean Canvas á meðan viðskiptahugmyndin er að mótast. Þegar lengra er komið er gott að gera fullbúna viðskipta- og fjárhagsáætlun sem fer ítarlegra og dýpra ofan í verkefnið. Fyrir sprotafyrirtæki er ólíklegt að áætlanirnar muni rætast og að þær séu 100% réttar, en einn tilgangur þeirra er að fá stofnendur til að einfaldlega hugsa dýpra um og skilja reksturinn betur frá öllum hliðum.

Viðskiptaáætlun (2 mín)
Í þessu örmyndbandi frá landshlutasamtökunum er farið stuttlega yfir hvað á að vera í viðskiptaáætlun og til hvers ætti að gera eina slíka yfirhöfuð. Vandamálið sem á að leysa þarf að vera skýrt, markhópalýsingar eiga að vera greinagóðar og nýjungin sem felst í lausninni þarf að vera hægt að útskýra.
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Viðskiptamódel og verðlagning

Hluti af viðskipta- og fjárhagsáætlun snýr að því að ákveða hvert viðskiptamódelið er, með hvaða hætti á að rukka fyrir vöruna og hvernig er hún verðlögð. Tekjur geta m.a. verið í formi beinni sölu, áskriftarmódels eða þóknana.

YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Viðskiptamódel og verðlagning (33 mín)
Farið er yfir mismunandi tegundir viðskiptamódela og aðferða varðandi verðlagningu á vöru eða þjónustu. Einnig er fjallað um hvernig á að rukka fyrir vöruna og af hverju það eigi að forðast að gefa of mikinn afslátt í upphafi þegar varan er gefin út.
Sniðmát

9. Fjármögnun

YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Að sækja pening frá fjárfestum (28 mín)
Í myndbandinu er farið yfir hvernig það er raunverulega að sækja pening frá fjárfestum. Oftast þarf ekki fjármagn áður en farið er af stað með sprotafyrirtæki og viðskiptahugmyndin þarf ekki að vera hipp og kúl til að sannfæra fjárfesta. Gerðu ráð fyrir að fá mörg nei áður en þú færð loksins já. Farið er yfir sjö algengar mýtur tengt fjármögnun sprotafyrirtækja.

Hvaða fjármögnunarleiðir eru í boði?

  • Styrkir: Ýmsir styrkir eru í boði fyrir sprotafyrirtæki allt frá nokkur hundruð þúsundum og upp í 50-70 milljónir hjá Tækniþróunarsjóði. Skoðaðu vandlega hvaða áherslur hver og einn styrktarsjóður hefur og reyndu að verja tíma í að sækja um þá styrki sem passa vel við þitt verkefni. Augljós kostur við styrki er að þú þarft ekki að láta frá þér neinn eignarhlut í sprotafyrirtækinu. Þú finnur yfirlit um styrki hér.
  • Fjárfestingasjóðir og englafjárfestar: Hægt er að sækja fjármagn frá fjárfestingasjóðum og englafjárfestum. Nokkrir sjóðir starfa hér á landi, sem má finna hér, en einnig er hægt að leita erlendis.
  • Hópfjármögnun: Leið sem er ekki svo algeng, en getur virkað vel fyrir ákveðin verkefni, er hópfjármögnun. Mismunandi er hvort þeir sem taka þátt í slíkri fjármögnun fái hlut í sprotafyrirtækinu eða sé boðið eitthvað annað. Hópfjármögnun þar sem þátttakendur fá hlut í fyrirtækinu fylgja ýmsar áskoranir en getur haft þann kost að vera með samfélag af fólki sem vill styðja við verkefnið og tala máli vörunnar. Á síðunni getur þú skoðað samantekt á hópfjármögnunarleiðum.
  • Lánsfé: Hægt er að sækjast eftir lánsfé frá t.d. bönkum og öðrum einkaaðilum. Slíkt er ekki alltaf auðfáanlegt, oft er gerð krafa um viðskiptaáætlun og mikilvægt er að vera sannfærandi af hverju þú og sprotafyrirtækið ættu að fá lán. Fleiri aðilar sem bjóða upp á lán má finna hér.
  • Fjármögnun úr eigin vasa: Einnig er möguleiki að fjármagna verkefnið úr eigin vasa ef svo er kostur, sérstaklega ef einungis er þörf á litlu fjármagni til að koma verkefninu á næsta stig. Þar að auki er hægt að safna hlutafé frá vinum og ættingjum gegn hlut í félaginu.

10. Á hvaða sviði er hugmyndin?

Viðskiptahugmyndir eru alls konar og á hinum ýmsu sviðum. Hér verður farið yfir nokkur þeirra og hvað er í stuðningsumhverfinu sérstaklega tengt þeim.

Fiskur
Matar- & sjávartengt
  • 💰 Uppsprettan (nýsköpunarsjóður Haga) er styrktarsjóður til að virkja og styðja frumkvöðla til nýsköpunar og þróunar í íslenskri matvælaframleiðslu.

  • 💰 Matvælasjóður er styrktarsjóður til að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaðar- og sjávarafurðum.

  • 🚀 Startup Stormur er hraðall fyrir græn verkefni á Norðurlandi og hentar vel fyrir matar- og sjávartengd nýsköpunarverkefni.

  • 🛖 Íslenski Sjávarklasinn sér um viðburði, tengslamyndun, ráðgjöf og nýsköpunarsetur tengt fiskeldi, fisksölu og sjávarútvegstækni.

  • 🛖 Orkídea er klasi og samstarfsverkefni til að greiða veg orkutengdra tækifæra, einkum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni og auka samstarf við fræðisamfélagið og atvinnulífið.

  • 💬 Matarfrumkvöðlar er Facebook hópur þar sem hægt er að leita eftir spurningum og svörum sem og spyrja aðra og óskað eftir jafningjaráðgjöf.

  • 💬 Frumkvöðlar í landbúnaði er Facebook hópur þar sem hægt er að leita eftir spurningum og svörum sem og spyrja aðra og óskað eftir jafningjaráðgjöf.

  • 💬 Ráðgjöf Matís. Matís getur veitt ráðgjöf til frumkvöðla í matvælavinnslu.

  • 🐟 Námskeið Matís. Fjölbreytt námskeið er í boði hjá Matís er geta komið frumkvöðlum í matvælavinnslu að góðum notum.

  • 🧑‍🍳 Matarsmiðja Matís er tilraunaeldhús fyrir vöruþróun og smáframleiðslu í matvælaiðnaði.

  • 🫙 Lífmassaver Matís er með tæknilega fullkominn vinnslubúnað sem hentar vel við þróun og framleiðslu á próteinum og olíum úr hliðarafurðum matvælavinnslu sem nýta má ýmist í fóðurgerð eða til manneldis og matvælagerðar.

  • 🧑‍🍳 Eldstæðið er atvinnueldhús fyrir matarfrumkvöðla og smáframleiðendur sem byggir á deilihagkerfinu

Ferðaþjónustan
Ferðaþjónustutengt
  • 🛖 Íslenski ferðaklasinn er samstarfsvettvangur aðila sem starfa á sviði ferðaþjónustu og tengdum atvinnugreinum þar sem hægt er að leita ráða hjá.

  • 🚀 Startup Tourism er hraðall fyrir sprotaverkefni sem tengjast ferðaþjónustunni.

  • 💬 Frumkvöðlar í ferðaþjónustu er Facebook hópur þar sem hægt er að leita eftir spurningum og svörum sem og spyrja aðra og óskað eftir jafningjaráðgjöf.

Náttúra
Tengt orku, loftlagsmálum eða hringrásarhagkerfinu
  • 🚀 Hringiða er viðskiptahraðall fyrir hringrásarhagkerfið sem byggir á því að undirbúa þátttakendur til að sækja um í Evrópustyrk LIFE-áætluninnar.

  • 🚀 Startup Stormur er hraðall fyrir græn verkefni á Norðurlandi.

  • 🛖 Hringrásarklasinn er klasi íslenskra framsækinna fyrirtækja sem vinna í hringrásarkerfinu og vinna að því að breyta úrgangi í auðlindir.

  • 🛖 Blámi er klasi og samstarfsverkefni með það markmið að ýta undir og styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávartengdum iðnaði ásamt því að efla nýsköpun á sviði orkunýtingar.

  • 🛖 Orkídea er klasi og samstarfsverkefni til að greiða veg orkutengdra tækifæra, einkum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni og auka samstarf við fræðisamfélagið og atvinnulífið.

  • 🛖 Eimur er klasi með það markmið að bæta nýtingu auðlinda á Norðurlandi eystra.

  • 🛖 Eygló er klasi og samstarfsverkefni um eflingu orkuskipta, orkunýtni og hringrásarhagkerfis á Austurlandi.

  • 💰 Loftslagssjóður er styrktarsjóður á vegum Rannís fyrir verkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.

  • 💰 Orkurannsóknarsjóður er styrktarsjóður á vegum Landsvirkjunar sem veitir styrki til rannsókna á sviði umhverfis- og orkumála.

  • 💰 NEFCO er sjóður sem lánar, styrkir og fjárfestir í fyrirtækjum á Norðulöndunum sem vinna á sviði loftlagsmála eða í hringrásarhagkerfinu.

  • ⚡️ Auðlindagarðurinn er aðstaða og samstarfsvettvangur á vegum HS Orku fyrir önnur orkufyrirtæki til að vinna og nýta betur náttúruauðlindir.

Heilsutækni (pexels)
Heilsutækni & heilbrigðismál
  • 🛖 Heilsutækniklasinn er klasi og samstarfsvettvangur í heilsu- og líftækni á Íslandi með það að markmiði að auka nýsköpun í heilbrigðiskerfinu og nýliðun í heilsu- og líftækni.

  • 👩‍💻 Lausnarmót Heilsutækniklasans stendur yfir í nokkra mánuði í upphafi hvers árs þar sem samstarfsaðilar klasans koma með áskoranir og þátttakendur vinna með sérfræðingum á þeirra vegum.

  • 💰 Fléttan eru styrkir til innleiðingar nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Er á vegum hins opinbera.

Íslenska krónan
Fjármálatengt (fjártækni)
  • 🛖 Fjártækniklasinn sér um viðburði, tengslamyndun, ráðgjöf og nýsköpunarsetur tengt fjártækni.

  • 🚀 Mastercard Lighthouse er prógram, vinnustofur og stuðningur fyrir sprotafyrirtæki í fjártækni með samstarfsmöguleikum við banka og Mastercard.

  • 🚀 Tenity er nýsköpunar stuðningsaðili frá Sviss sem rekur sérstaka viðskiptahraðla fyrir sprotafyrirtæki frá Norðurlöndunum.

  • 🚀 Copenhagen Fintech er fjártækniklasi í Danmörku sem reka reglulega viðskiptahraðla sem íslensk fyrirtæki hafa sótt.

  • 💬 Fjártækni á Íslandi er Facebook hópur og umræðuvettvangur fyrir allt tengt fjártækni.

Landsbyggðin
Tengt landsbyggðinni

Hér á síðunni má finna sérstakan leiðarvísi fyrir landsbyggðina sem gefur yfirsýn yfir stuðningsumhverfi nýsköpunar utan höfuðborgarsvæðisins.

11. Stofnun fyrirtækis

Þegar viðskiptahugmynd er komin á það stig að hefja á rekstur, selja vöru eða þjónustu, þarf að ákveða hvort það er einstaklingsrekstur eða fyrirtækjarekstur. Einstaklingsrekstur er á kennitölu einstaklings sem ber þá fullu ábyrgð á rekstrinum. Algengara er þó að sprotafyrirtæki stofni fyrirtæki þar sem skuldbindingar og ábyrgð færist að hluta frá einstaklingnum til fyrirtækisins. Hér verður farið yfir þá lykilþætti er snúa að stofnun fyrirtækis.

Ef rekstur er ekki hafinn og ekki er byrjað að selja vöru eða þjónustu, gæti verið ráðlagt að bíða með stofnun fyrirtækis. Við stofnun fyrirtækis fylgja ýmiss kostnaður og skyldur sem ber að hafa í huga (t.d. kostnaður vegna launa, bókara, endurskoðanda eða launatengd gjöld,). Oft er hægt að fara langt með viðskiptahugmynd áður en fyrirtæki er stofnað og hægt er að sækja um flestalla styrki án fyrirtækjakennitölu.

Lykilupplýsingar um hvað þarf til að stofna fyrirtæki

Að ákveða rekstrarform fyrirtækis

Áður en félag er stofnað þarf að ákveða rekstrarform þess en algengustu formin eru:
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Hvaða rekstrarform á að velja? (2 mín)
Í myndbandi frá landshlutasamtökunum má sjá hraða yfirferð yfir mismunandi rekstrarform fyrirtækja.

Ýmsar skyldur við stofnun fyrirtækis

  • Nauðsynlegt er að halda bókhald (fá bókara ef þú treystir þér ekki sjálft).
  • Skila þarf ársreikningi og skattframtali á hverju ári.
  • Sækja þarf um virðisaukaskattsnúmer (VSK-númer) ef það á að selja vöru eða þjónustu.
  • Skila þarf VSK-skýrslum (á 2ja mánaða fresti í upphafi).
  • Halda þarf utan um hluthafaskrá (eigendur).
  • Greiða þarf laun.

Nokkur atriði til að hafa í huga

  • Sækja um einkaleyfi hjá Hugverkastofu ef það á við.
  • Skoða hvort sækja þarf um önnur starfsleyfi.
  • Þegar greidd eru laun þarf félagið að standa skil á launatengdum gjöldum. Reiknaðu heildarkostnaðinn.
  • Sækja um bankaviðskipti eftir að félag hefur verið stofnað.

Það sem (mögulega) enginn sagði þér

  • Það þarf alltaf að skila inn VSK-skýrslum, líka þegar engin sala eða rekstur er hafinn.
  • Virðisaukaskattur er greiddur eftir á og því gott að halda þeim pening til hliðar á sér bankareikningi.
  • Skatturinn rukkar áætlaðan tekjuskatt yfir árið út frá árinu á undan, sem er síðan leiðrétt eftir næsta skattframtal.
  • Ef það er mikill hagnaður eitt árið, þá þarf að gera ráð fyrir því að árið eftir þarf að greiða háan áætlaðan tekjuskatt.

Einkaleyfi, vörumerki og önnur hugverkaréttindi

Eftir stofnun fyrirtækis getur verið að þú viljir vernda hugverkin þín eins og vörumerki sem getur verið mynd, texti eða hljóð svo nokkur dæmi séu tekin. Ennfremur getur þú sótt um einkaleyfi á tæknilegum uppfinningum. Þú finnur frekari upplýsingar um umsóknir, fræðslu, og ráðgjöf hjá Hugverkastofu.
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Vörumerkjaskráning | Hugverkastofan (2 mín)

12. Ítarefni & nám

YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Markmið (27 mín)
Ákveða lykilframmistöðuvísa (e. KPIs), forgangsraða þeim og nýta þá til að ná settum markmiðum.
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Mælikvarðar (24 mín)
Hvað á að mæla og hvað ekki, farið yfir lykiltölur til að fylgjast með og nýta til að taka ákvarðanir.
YouTube Video Thumbnail

YouTube Logo
Tæknilegar lausnir (28 mín)
Ýmsar ráðleggingar fyrir fyrirtæki á fyrstu stigum sem vinna að tæknilegum lausnum.

Ýmiss konar nám og námskeið tengt nýsköpun